Fnykurinn af endurreisninni

Hér varð hrun. Haustið 2008 hrundu bankar, hagkerfið hrundi, ímynd Íslands sömuleiðis. Þetta eru einföld sannindi þótt erfitt geti reynst að viðurkenna þau. Og hrun eiga sér orsakir. Þannig geta byggingar hrunið vegna þess að innviðirnir voru ekki nægilega traustir og úrhelli eiga til að valda aurskriðum. Svipað gildir um hrun í mannheimum, þau gerast ekki sisona. Þrumur koma aldrei úr heiðskíru lofti, hvað sem máltækið segir.

Í Íslandi ehf, afar fróðlegu riti Magnúsar Halldórssonar og Þórðar Snæs Júlíussonar, er minnst á aðdraganda efnahagshrunsins hér á landi. „Íslenska efnahagskerfið er ekki fyrsta ríkið sem farið hefur á hliðina,“ segja þeir félagar, „þótt það hafi líklega gert það með meiri stæl og umfangi miðað við höfðatölu en nokkurt annað ríki“ (57). Hér er þá komið alþjóðlegt samhengi og nokkrar orsakir eru nefndar, ekki síst ofvöxtur bankakerfisins, ásókn í auðfengin lán erlendis, svik og prettir á viðskiptasviðinu. Skömm höfundanna á sumu því sem viðgekkst fyrir hrun leynir sér ekki og taka þeir þá djúpt í árinni: Margir „innan lífeyrissjóðskerfisins“ eru sagðir sammála um að skuldabréfaútgáfa Bakkavarar Group hafi verið „ein svívirðilegasta misnotkun á trúgirni og oft á tíðum barnslegri einfeldni sjóðanna sem átti sér stað fyrir hrun“ (122). Húsasmiðjan var „keyrð í gegnum tvær skuldsettar yfirtökur á gullaldarárum séríslenskrar viðskiptasnilldar“, segir á öðrum stað og lekur kaldhæðnin af hverju orði. Nóg eiga þeir þó eftir fyrir næstu setningar:

Um tíma stóð meira að segja til að fara með byggingarvöruverslunina í útrás. Íslendingar, sem framleiða nánast ekkert af byggingarefninu sem selt er í versluninni, ætluðu að sýna fram á að þeir væru ekki aðeins færustu bankamenn í heimi, heldur einnig færari en aðrir í að selja byggingarefni (210).

Fínt er að tala enga tæpitungu. Stíll verksins finnst mér góður, enda þaulreyndir blaðamenn á ferð. Stundum eru þeir full óformlegir fyrir minn smekk; samningar eru gjarnan „kláraðir“ í bókinni og eitt sinn er tilgangur vafasamrar viðskiptafléttu sagður sá „að setja strik í sandinn“. Eimir þar af þeirri enskuskotnu íslensku sem útrásarvíkingarnir og viðskiptajöfrarnir sjálfir tileinkuðu sér árin fyrir hrun.

Nú verður hins vegar að nefna það aðalatriði að þótt minnst sé á árin fyrir hrun í bókinni snýst hún um það sem gerðist eftir að hamfarirnar dundu yfir. Fyrst er horft til björgunaraðgerða á staðnum ef svo má segja. „Ísland hrynur,“ nefnist sá hluti og er þar dregin fram dökk mynd sem ekki verður fegruð: Tveir þriðju hlutar fyrirtækja í landinu voru tæknilega gjaldþrota, án „endurskipulagningar“ hefðu þau farið lóðbeint á hausinn fyrr en varði. Í miðhluta verksins, „Stóru bitarnir“, er endurskipulagningin mikla rakin. Hverjir misstu bita, hverjir héldu sínum, hvers vegna, með hvaða leiðum og ekki síður hvaða afleiðingum? Í þriðja og síðasta hluta er spurt stórt: „Hverjir eiga Ísland?“

Seint verður þetta sögð skemmtilesning þótt lesandanum sé vel haldið við efnið og hver sjokkerandi frásögnin reki aðra. Stundum er sagt um banka að þeir séu of stórir til að hrynja, að meiri hagsmunir séu í því fólgnir að halda þeim í lagi. Á Íslandi áranna eftir hrun varð niðurstaðan oftar en ekki sú að sumir viðskiptajöfrar væru orðnir of umsvifamiklir til að þeir mættu missa sín. Nauðsyn braut ekki endilega lög en hún virtist trompa réttlæti og sanngirni, í það minnsta fær maður það á tilfinninguna við lestur þessarar bókar. Þetta er oft raunin þegar reisa þarf ríki úr rústum eða koma á friði í ólgandi samfélagi, samanber Vestur-Þýskaland eftir seinni heimsstyrjöld þar sem margir í stjórnkerfinu höfðu áður gegnt ábyrgðarstörfum á Hitlerstímanum, eða Suður-Afríka þar sem embættismenn frá aðskilnaðarskeiði héldu sínum stöðum.

Tökum nokkur dæmi úr Íslandi ehf. um óréttlæti í verki hér á landi, að því er virðist í nafni heildar- og langtímahagsmuna:

Þeir sem höfðu rekið fyrirtæki sín vel og ekki skuldsett þau óhóflega í aðdraganda hrunsins þurftu einfaldlega að bíta í það súra epli að una því að samkeppnisaðilum þeirra yrði haldið á lífi, skuldir þeirra afskrifaðar og samkeppnishæfni þeirra þar með aukin (64).

Það fór vægast sagt öfugt ofan í íslenskt samfélag að menn [Jón Ásgeir Jóhannesson og Jóhannes Jónsson í Bónus] sem skulduðu fleiri hundruð milljarða króna meira en þeir áttu, myndu hugsanlega fá að halda einhverjum eigna sinna þegar verðbólga og gengisfall át upp eignir annarra. Slíkt var einfaldlega ofar skilningi hins venjulega manns. Reiðin sem braust út á þessum tíma var næstum áþreifanleg (90).

Fulltrúa Landsbankans í stjórn Framtakssjóðsins var svo ofboðið yfir því að félag [Kvos, móðurfélag Odda, Gutenbergs og Kassagerðarinnar] sem nýverið hafði fengið milljarða afskriftir hjá bankanum væri mætt til að kaupa eignir sem bankinn átti óbeint í gegnum hlut sinn í Framtakssjóðnum að hann greiddi atkvæði gegn sölunni (227).

Svona gengu kaupin á eyrinni. Dæmisögurnar vantar ekki og í viðtali í Morgunblaðinu 26. ágúst 2013 sagði Magnús að þeir Þórður Snær hefðu lagt á það áherslu í bókinni, „að segja hlutlaust frá, við erum ekki að reka sérstakt erindi heldur erum við blaðamenn sem segjum frá staðreyndum.“ Þetta er göfugt markmið en tekst það? Þannig fer vart á milli mála, eins og áður var ýjað að hér, að höfundarnir hafa ímugust á Bakkavararbræðrum og kemur reyndar fram í bókinni að sú andúð er gagnkvæm (115−116). Sömuleiðis andar greinilega köldu í garð þeirra Bónusfeðga.

Við sagnfræðingar segjumst margir vita að fullkomið hlutleysi sé ómögulegt þótt sjálfsagt sé að stefna að því. Við erum víst öll börn okkar tíma, bundin eigin fordómum og reynsluheimi en erum kannski misjafnlega meðvituð um það. En hvað með þá hlutleysisvörn að vera einungis að segja frá staðreyndum? Blaðamenn hafa þá möntru að gera það með því að veita almenningi svör við einföldum spurningum: „Hver gerði hvað, hvenær, hvar, hvernig, hvers vegna og hvað svo“.

Þetta er gert svikalaust í Íslandi ehf. En er ritið hlutlaust og dugar að einblína á frásögn í anda frétta í fjölmiðli? „Það getur vel verið að einhverjir vilji fá meiri mötun og ítarlegri greiningu,“ sagði Magnús Halldórsson áfram í Morgunblaðsviðtalinu. Minnumst líka orða Sigurðar Nordals frá miðri síðustu öld sem enn eru í fullu gildi: „Jafnvel annálaritari, sem skrifar fáeinar línur eða blaðsíður um atburði líðandi ára og gerir engar athugasemdir um þá frá eigin brjósti, er með hverju orði að kveða upp dóma og láta skoðanir sínar í ljós. Hvert sinn, sem hann færir eitthvað í letur eða lætur annars ógetið, sem honum er jafnkunnugt, er hann að skýra frá því hvað honum finnist verðast þess að geymast í minni.“ [1]

Að mínu mati hefði verið fengur í „meiri mötun og ítarlegri greiningu“ án þess að dregið sé úr gildi þess að fá þessa ágætu samantekt um auðmenn og áhrif á Íslandi eftir hrun. Sjálfur viðurkenni ég líka fúslega að í riti mínu um hrunið sjálft sem kom út árið 2009 var frásögn í fyrirrúmi en minna bar á greiningu þótt hennar gætti reyndar víða ef vel var að gáð. Að þessu leyti er ég að taka undir gagnrýni sem beint var að minni bók en ég svaraði með því að segja að of skammt væri liðið frá því sem sagt væri frá – öldur hefði ekki lægt, ró hefði ekki færst yfir sviðið – og þar að auki vantaði enn heimildir.

Þá erum við líka komin að mikilvægu álitamáli. Hver gerði hvað? spyrja blaðamennirnir og þar fram eftir götunum; hvað, hvenær og hvers vegna? Eina spurningu vantar þó í þá romsu: Segir hver?

Í bókinni er ekki vísað til heimilda, í henni er ekki heimildaskrá og ég verð að skamma Jóhann Pál og alla hina vini mína hjá Forlaginu fyrir að hafa ekki rolast til að henda saman nafnaskrá. Þannig skrá verður að teljast bráðnauðsynleg í flottu riti af þessu tagi. Það má kannski teljast handvömm eða sparnaðaraðgerð en skortur á tilvísunum og heimildaskrá er annars eðlis. Hver segir hvað? Hverjir eru heimildarmenn þegar sagt er frá atriðum sem byggja greinilega á óopinberum gögnum? Stundum sýnist manni augljóst að þeir sem eru til frásagnar séu kannski engir englar sjálfir en hafi kosið að koma sinni sýn á framfæri, í og með til að hefna sín á hinum eða fegra eigin málstað. Stundum er líka erfitt fyrir lesanda að átta sig á hvort tiltekin atriði hafi áður komið fram eða hulunni sé fyrst svipt af einhverju svínaríinu í þessari bók. Í dálitlu skrifi um hana benti Andrés Magnússon á Viðskiptablaðinu einmitt á að frásögn um vilja Deutsche Bank til að leysa Icesave-deiluna hafi vakið mikla athygli núna um stundir en þá hafi greinilega gleymst að Morgunblaðið sagði frá þeim tillögum bankans haustið 2010.

Loks finnst mér að Magnús og Þórður Snær, meistarar hinnar grafísku framsetningar í Kjarnanum nýja, hefðu mátt splæsa í þótt ekki væri nema nokkrar töflur og súlurit. Þannig hjálpartæki hefðu nýst vel til að sýna tap og afskriftir og annað af því tagi. Lýkur þá aðfinnslum og lokaorðin verða þau að ritið er vel unnið, bráðnauðsynlegt og gott dæmi um mikilvægi þess að blaðamenn setjist niður og skrifi bækur um málefni líðandi stundar. Þeir hafa ekki sagt lokaorð um endurreisn Íslands eftir hrun, það mun enginn gera. Álitamálin eru of mörg, sjónarhornin sömuleiðis. En þeir hafa lagt sitt af mörkum og gert það vel.

Að allra síðustu þetta: Vonandi verða þær upplýsingar sem teknar eru saman í bókinni til þess að færri reyni að fullyrða – og enn færri trúa því – að á Íslandi hafi endurreisn efnahagslífs tekist betur og verið gerð á sanngjarnari vegu en annars staðar. Það var skítalykt af hruninu og það er skítalykt af endurreisninni. Kannski verður svo að vera en það er óþarfi að fegra það og fnykurinn kemst hvort eð er alltaf í gegn að lokum.
[1] Sigurður Nordal, Íslenzk menning I, Reykjavík, 1942, 7−8.

;
©Ástríki ehf. Vesturströnd 15, 170 Seltjarnarnes
Sími: 692 6012.